Tindfjallaskálinn – aftur

Home Umræður Umræður Almennt Tindfjallaskálinn – aftur

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #45588
    0312487369
    Meðlimur

    62 ára saga endar ekki hjá ÍSALP

    Ég undrast stórorða afstöðu sumra ÍSALP-félaga þegar kemur loks fram tillaga um að gera róttækar breytingar á tilvist Tindfjallaskála og um að tryggja framtíð hans sem allra fyrst. Gleymum því ekki að heldur lítil notkun ÍSALP-félaga á húsnæðinu þarna efra, sveiflukennt og tæplega nægt viðhald og áralöng heilabrot um hvernig megi bjarga skálanum hafa ekki staðið klúbbnum fyrir þrifum. Þannig er óskiljanlegt að umræða um hann sé allt í einu tengd því hvort klúbburinn hafi tilvistarrétt eða ekki! Hæg niðurlot Bratta standa heldur ekki í vegi fyrir núverandi starfsemi ÍSALP eða vellíðan félaga. Eða hvað? Flestir eru sammála um af hverju Tindfjallaskála fer of hratt aftur: Fjárskortur klúbbsins, annir manna við annað en skálarekstur, fámenni hins virka hóps (nær hann 100?) og takmörkuð þörf fyrir ýmsa fjallaskálana sem á hálendinu eru. Síðasta atriðið botnar augljóslega í því að menn nota tröllajeppa og önnur farartæki í þeim mæli að aðeins betri skálar eru vel nýttir enda þeir orðnir býsna margir. Tveir aðrir skálar sem lengi hafa verið nánast við hlið þess gamla í Tindfjöllum koma líka við þessa löngu sögu. Meginástæðan fyrir að varðveita og nýta Tindfjallaskálann svo langt sem nýtingin mun ná er fyrst og fremst söguleg sérstaða hans og uppruni. Hann er annar háfjallaskáli landsmanna (á eftir gamla Fimmvörðuhálsskála) og sá eini sem enn til er og byggður var sem fjallamannaskáli í þröngum skilningi orðisins. Frá um það bil 1954 til 1966 var honum lítið sinnt af því að krafturinn var þá að mestu úr Fjallamönnum en með nokkurri endurnýjun félagsins (einkum stjórnar og lítils kjarna) var ráðist í að lagfæra hann vel og vandlega árin 1966-1968. Fljótlega eftir það lagðist félagsskapurinn Fjallamenn af. Ábyrgðamenn hans gáfu ÍSALP skálann. Raunar er spurning hvort Fjallamenn sem deild í Ferðafélagi Íslands hefðu ekki þurft að hafa samráð við móðurfélagið um gjörninginn (sem ég studdi) en það skiptir litlu máli nú. Auðvitað er fullsannað á tæpum 30 árum að ÍSALP hefur ekki valdið rekstri skálans, um það deilir enginn. Hann þolir ekki mörg ár með sama áframhaldi. Við bræður (einn er arkitekt) höfum sannreynt það. Af öllu þessu leiðir að skynsamlegasta ákvörðunin felst í að koma skálanum í öruggt fóstur án tafar. FÍ hefur sannað áhuga sinn á “fornminjum”af þessu tagi sbr. uppgerðan Hvítárnesskálann svo eitthvað sé nefnt og ræður vel við verkefnið. Mér er óskiljanlegt að einhverjir skuli finna slíkri ráðstöfun allt til foráttu án þess að gera tryggt nokkurn skapaðan hlut varðandi framtíð skálans. Verðið fyrir hann er aukaatriði ef í samningum felst einhvers konar loforð eða skuldbinding FÍ um endurnýjun; þau fjárútlát og til dæmis 500.000 krónur eru nægt endurgjald fyrir gjöf FÍ-deildar til ÍSALP fyrir áraugum. Gleymum því heldur ekki að ekki er nóg þótt það fáist hópur af viðgerðarglöðum félögum í skyndingu – engin ástæða er til að treysta því að umönnun skálans verði góð í ásættanlega mörg ár úr því sömu menn hafa ekki fyrir löngu tekið honum tak.
    Ég svaraði fundarboði stjórnar með því að senda smánótu til hennar til að undirstrika að ég styð tillöguna um sölu til FÍ og hvet andstæðinga hennar til að skipta um skoðun. Sá gamli á það skilið.
    Ari Trausti

    #51966
    2806763069
    Meðlimur

    Ég verð að játa eins og Helgi Borg að ég er orðinn tvístígandi í þessu máli.
    Orð Ara Trausta vega vissulega þungt og ég er (sem fyrr) sammála honum í því að skálinn er fyrst og fremst sögulegar minjar sem ber að sýna tilhlýðilega virðingu.

    Ég er einnig sammála því að FÍ hefur án efa betri burði til þess að standa vel að málum en ÍSALP og að ÍSALP hefur fengið sitt tækifæri.
    Það er hinsvegar sárt að láta frá sér skálann og erfitt að velta ekki fyrir sér hvort verðið sé rétt og hvort það hækki í framtíðinni. Á hina hinn boginn þá er ÍSALP ekki fjárfestingarfélag, þó auðvitað sé það verk stjórnar að ráðstafa eigum klúbbsins þannig að heildar hagsmuna ÍSALP sé best gætt hverju sinni.

    Ég get líka sagt að það eina sem fengi mig til að nýta þetta svæði og skálann meira er ef hann væri í topp standi. Þannig að skíðatúr gæti falið í sér skemmtilega skálastemmingu í þurrum, upplýstum, hlýjum og snyrtilegum skála.

    Það eina sem ég veit er að ástandið getur ekki verið eins og það er í dag – eitthvað þarf að breytast!

    Ívar

    #51967
    Páll Sveinsson
    Participant

    Ég er á móti söluni eins og staðið er að henni í dag. Ef skálinn verður seldur þá þarf að standa rétt af því. Orð eins vega ekki meira en annars og allir hafa rök á móti og á með þessum gjörningi.

    T.d. hvað gerist ef tillaga stjórnar um að skálin verði seldur verður feld 5 des?

    Nei og aftur nei.
    Það þarf að liggja ýtarleg greinargerð um málið og helst að samþykkja söluna á tveimur aðalfundum.

    Engin fordæmi eru fyrir að svona ákvörðun sé samþykkt á félagsfundi boðuðum með þessum hætti.

    kv.
    Palli

    #51968
    1410693309
    Meðlimur

    Með sömu rökum er líklega full ástæða fyrir ÍSALP að fara sömu leið og skálinn (og Fjallamenn) og segja sig til sveitar hjá FÍ! Hvað sem hver segir væri það mikill hnekkir fyrir klúbbinn ef það verður niðurstaðan að hann getur ekki haldið út skálanum. Kannski eru það hins vegar örlög klúbbsins að vera kjaftaklúbbur á Netinu og nokkur sófasett í Reykjavík.

    Auðvitað er það nýtt element ef fyrir liggur að FÍ skuldbindur sig til að koma skálanum í upprunalegt horf, halda honum óbreyttum (í stað þess að byggja hálendismiðstöð) og tryggja þannig aðgengi fjallamanna að svæðinu.

    Ef þetta er tilgangur FÍ sé ég enga ástæðu til að skálinn verði seldur. Endurbygging skálans ætti þá miklu frekar að verða samvinnuverkefni FÍ og ÍSALP og skálinn rekinn undir merkjum beggja félaga.

    Ég hvet menn, enn sem fyrr, til að flýta sér hægt. Hefur það verið skoðað af alvöru til hvaða ráðstafana er hægt að grípa, annarra en að selja? Ég minni á að það er aðeins tvö ár frá því að tekið var að læsa skálanum sem er (því miður) lykill að bættri umgengni.

    #51969
    Smári
    Participant

    Að sjálfsögðu vega orð eins meira en annars! Það fer þó ekki eftir því hver maðurinn er heldur hvaða orð hann segir (skrifar). Í þessu samhengi finnst mér orð Ara Trausta vega mjög þungt.

    Skálinn er að grotna niður og Ísalp (félagar Ísalp) hafa sýnt að þeim er ekki treystandi fyrir skálanum, sorgleg staðreynd en skálinn væri betur á sig kominn ef við hefðum staðið okkur.

    Þess vegna finnst mér að þeir sem beri tilfinningar til skálans og svæðisins ættu að samþykja söluna til þess að þessi sögufrægi skáli komist í hendur góðra manna sem geta tryggt framtíð hans á svæðinu.

    Ég minni enn og aftur á að skálinn verður ekki seldur án þess að aðgangur Ísalp félaga sé tryggt.

    Hverju höfum við þá að tapa, ef við höfum fullan að gang að skálanum (betri skála).

    Lyklarnir eru meira að segja geymdir hjá FÍ og hafa verið það síðan 2005 ef ég man rétt.

    Tryggjum góðan skála í Tindfjöllum með greiðum aðgangi Ísalp félaga.

    Smári

    #51970
    0312487369
    Meðlimur

    Sutt framhald vegna svara við innleggi mínu:

    Ég er ekki félagi í FÍ og veit svo sem ekki hvað menn hugsa þar um skálann en get ekki ímyndað mér að hann verði rifinn, látinn grotna niður eða felldur inn í e-s konar hálendismiðstöð. Eina vitræna verkefnið er að gera skálann vistlegan og hafa hann í sem næst upprunalegu horfi – í virðingarskyni við brautryðjendur fjallamennsku og til góðra nota því þannig viljum við að skálar standi undir nafni. Orð sem ég sá í einhverju innlegi um að FÍ standi jafnvel öndvert fjallamennsku eða eignarhald ÍSALP á skálanum sé trygging fyrir aðgengi að svæðinu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og þá heldur ekki undarlegur ótti um að Tindfjallasvæðið stefni í að lokast allri útivist eða verði gert að sérsvæði FÍ eða einhverra annarra (?). Ég hélt að á milli þessara tveggja félaga ríkti ekkert nema velvild og svo verði meðan bæði starfa. Er það misskilningur? Ég bendi aftur á að vegferð Tindfjallaskála og Bratta hefur hvorki skaðað né ýtt undir starf ÍSALP svo neinu nemi og furða mig á að menn skuli leggja sölu þess fyrrnefnda að jöfnu við næstum dauða ÍSALP eða fara allt i einu að veifa formlegri tengingu klúbbsins við FÍ með háðsorðum (eru deildir FÍ annars einhvers konar samsafn aumingja?). Engum hefur dottið sú tenging í hug fyrr en nú og vandséð að hún komi málinu við í alvöru. Hitt er svo annað mál að menn geta haft áhyggjur af raunverði skálans sem var gjöf á sínum tíma eða af formsatriðum varðandi ákvörðun um sölu eða ekki sölu – ég hef því miður ekki sett mig inn í þau mál. Þurfi meiri umræður, ítarlega greinargerð og nokkra fundi, kannski eins og einn með FÍ-mönnum, þá það, en lendum þessu máli altént fyrir næsta sumar.

    Ari Trausti

    #51971
    2704735479
    Meðlimur

    Það er ekki hægt að taka afstöðu til þessa máls án þess að fá nákvæmlega að vita hvernig skilmálar sölunnar hljóða. Hvernig væri að koma með þá upp á borðið og hætta svona söluræðum sem verða ekki til neins annars en að pirra fólk og ala á tortryggni.

    -verður skálinn endurgerður/gerður upp í upprunalegri mynd (ekki stækkaður)?
    -hvers vegna vill FÍ ekki að þetta sé samstarfsverkefni ÍSALP og FÍ?
    -hvers vegna þarf ákvarðanataka að eiga sér stað svona hratt (minna en tvær vikur frá því hugmyndin var kynnt -ætti ekki frekar að boða til félagsfundar til þess að kynna málið og ganga svo til atkvæðagreiðslu um það á aðalfundi)?
    -hvernig skal útfæra að ÍSALP félagar hafi forgang að skálanum yfir vetrarmánuðina?
    -varðandi verðmat skálans: er hægt að uppreikna verð skálans út frá því að hann var gjöf fyrir 30 árum? Tímar eru gjörbreyttir í dag bæði hvað varðar verð á eignum og landi og hvað varðar nýtingu og verðmæti óspilltrar náttúru.

    ást og umhyggja

    #51972
    1410693309
    Meðlimur

    Ég er ekki heldur félagi í FÍ og veit ekki hvaða fyrirætlanir það félag hefur með skálann eða á svæðinu almennt. Mér sýnist að enginn annar viti það heldur … Já, væri ekki ráð að anda með nefinu.

    #51973
    0703784699
    Meðlimur

    spyr enn og aftur með utankjörfundaratkvæði? Er það hægt…menn ræddu þetta f. síðasta aðalfund?

    Ég segi nei, hef því miður ekki trú á því að FÍ sé að fara að hugsa um neitt annað en sjálfa sig í þessu dæmi, allaveganna hefur ekkert annað komið fram að mér finnst.

    Mér finnst of mikil peningalykt af þessu máli, þeas græðgisvæðingin sem er að knésetja okkur íslendinga, FÍ er ekki að hugsa um hag ÍSALP í þessu máli né fjallamanna, heldur að geta selt í sínar ferðir.

    Held að FÍ sé frekar að falast eftir svæðinu/landinu en sjálfun skálanum sem er nú ekki ýkja stór. Því sé ég ekki rökin f. að halda í minningu Fjallamanna eða elsta skála landsins séu í hávegum höfð….og sé ég minningu og virðingu skálans betur sómið í eigu Ísalp en FÍ, þó lagfæringin standi á sér í einhvern tíma.

    Nú ef ég hef rangt f. mér að þá er það þeirra sem kynntu málið að útskýra þetta betur, eða anda með nefinu einsog einhver vitur maður orðaði það (tel að hans orð vegi ekki síður en Ara Fróða eða var það kannski Trausti?). Sé ekki af hverju þarf að drífa í þessu? Það er einsog ekki allt liggi uppá borðinu….af hverju að drífa sig, er það af því FÍ hefur hag af því eða?

    Enn og aftur vík ég mér að spurningunni um stefnu Ísalp eftir könnunina góðu? Hvert ætlar Ísalp? Fjallaklúbbar erlendis halda margir hverjir úti skálum? Getur núverandi stjórn ekki haldið úti þeim verkefnum sem hafa lengi verið á könnu stjórnar, eða er það áhugaleysi á að leysa þetta mál sem skálinn/skálarnir eru? Eða er búið að ákveða það að skálar séu og verða ekki lengur í eigu ÍSalp, af hverju að selja annan af tveimur? Vill FÍ kaupa Bratta líka? Hvert stefnir klúbburinn, námskeið eru ekki lengur ókeypis heldur er borgað f. þau, af hverju þá ekki líka vinnu við uppbyggingu á skálanum?

    kv.Himmi

    PS: FBSR og fleiri sveitir á suðurlandi hafa verið undanfarið að endurbyggja og lagfæra Tindfjallasel og hefur það gengið vel af sjálfboðaliðasamtökum að vera, nokkrir fundir, nokkur símtöl og svo nokkrar ferðir. Mjakast áfram þó hægt sé. En þar hefur líka þurft að notast við aðkeypt vinnuafl sem er jú líka alltaf möguleiki f. Ísalp, ekki þarf allt að vinnast með fríu handafli sem verður alltaf erfiðara og erfiðara að komast í í nútíma samfélagi.

    #51974
    1704704009
    Meðlimur

    Ég fullyrði að það ríkir fullkomin velvild milli Ísalp og FÍ.
    FÍ hefur reynst klúbbnum mjög vel og ég vitna um að Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri og Ólafur Örn forseti eru frábærir menn sem hafa sýnt Ísalp óeigingjarnan áhuga.
    Mér finnst falla heldur kuldaleg og óverðskulduð orð í garð FÍ hér á þessum síðum.

    Þetta mál snýst um málefni Ísalp. FÍ hefur ekki unnið sér til sakar með því að leggja fram kauptilboð. Klúbburinn á að ræða hvernig hann vilji bregðast við kauptilboðinu en vera ekki að gera FÍ upp hugsanir.

    FÍ er gífurlega öflugt félag og gerir hlutina vel. En það er ekki þar með sagt að Ísalp geti það ekki líka með kofann sinn litla. Látum reyna á það. En gagnrýnum sjálfa okkur á þeirri vegferð – ekki FÍ.

    #51975
    1410693309
    Meðlimur

    Það er engin ástæða til að hallmæla FÍ sem er vel rekið félag undir stjórn góðra manna. Ef ég hef gerst sekur um slík mismæli bið ég hlutaðeigandi velvirðingar.

    Við skulum halda FÍ utan við þetta mál sem snýst um ÍSALP og starfsemi hans en ekki FÍ.

    #51976
    0703784699
    Meðlimur

    „Nú ef ég hef rangt f. mér að þá er það þeirra sem kynntu málið að útskýra þetta betur“ segi og skrifa aftur….

    Ég gat ekki lesið annað útúr þessu en að það þarf að drífa þetta í gegn svo að FÍ geti eignast skálann á 500.000 þúsund, ef ég er að misskilja það svona hrottalega að þá segi ég það enn og aftur að þeir sem tóku málið upp í byrjun ættu að reyna að útskýra það betur. Þetta var ekki skrifað til að úttúða neinn eða neitt félag heldur bara að benda á hvernig þetta lítur út frá mínum bæjar dyrum séð. Lyktar smá Rei/GGE fílingur í þessu eða?

    Ég get ómögulega séð annað en að FÍ vilji að þetta gerist sem fyrst , og þá spyr ég enn og aftur af hverju? Hvað liggur á? Vona að það lesist ekki og skiljist ekki sem óverðskulduð og kuldaleg orð að menn þurfi að svara f. asann? Ég veit ekki til þess að ég hafi notað sterk orð sem skilja má sem hallmæli en kannski hef ég önnur viðmið í þeim efnum en aðrir. Ég biðst innilegrar velvirðingar á því ef einstaklingar eða félög hafa tekið þessu illa. Ég tek það fram að þetta allt beindist að stjórn ísalp sem bar þetta mál upp (ekki FÍ enda báru þeir ekki upp erindið við mig þar sem ég er ekki félagi í þeirra samtökum) og bið ég þá að útskýra allar hliðar málsins betur svo ég (og eflaust aðrir) séum ekki að sitja hver í sínu horni illa upplýstir.

    Ef ekki væri f. asann að þá myndi ég kannski hugsa þetta öðruvísi,

    Því miður get ég ekki mætt til að hlusta á þetta á fundinum sem kallaður var til, og vona að utankjörfundaratkvæði mitt verði tekið sem NEI, þangað til betri rök koma um að selja.

    En einsog Palli að þá væri ég mjög svo til í að fá að skoða það að leggja fram tilboð uppá 501.000 krónur til að eigna mér þennan skála, ef það væri þá hægt….ekki til einkanota heldur til að leigja hann út til félaga, gönguklúbba og annarra sem leið eiga þarna um og ég er mjög sveigjanlegur í samningum og gæti eflaust fundið góðar klausur með mínum lögmanni sem heimila Ísalp aðgang að skálanum. (úff aftur gerist ég sekur um að vera með hæðnistón eða?)

    kv.Himmi

    #51977
    0311783479
    Meðlimur

    Aetli thad se nu ekki ad aera ostodugan ad likja thessu vid GGE og REI…

    Ef fundarbodid eitt og ser er nog til ad thess ad blasa monnum byr i brjost sem og ad sla skjaldborg um skalan, tha ma segja ad tilganginum se ad einhverju leyti nad.

    Fra minum baejardyrum sed er astand skalans okkur ekkert serstaklega til soma. Margur felagsmadur, thar a medal eg, a godar minningar ofan ur Tindfjallaskala og thad a ad vera okkur aeggjan um gera veg hans sem bestan. Eg er jafnsekur sem hver annar um ad hafa legid a lidi minu til vardveislu skalans, ekki ad eg se madur hlandlaginn sem neinu nemur.

    Okkur var hann falinn til umsjar af kempum fyrri tidar og ef skalinn grotnar nidur og fellur, tha erum vid menn og konur ad minni fyrir vikid ad hafa ekki gert thad sem i okkar valdi stod til ad halda honum vid ellegar ad koma honum i hendur theirra sem geta tekid vid kyndlinum sem Fjallamenn tendrudu a sinum tima.

    Virdi skalans i hugum felagsmanna er i raun illgerlegt ad faera i thorsk eda albarra, hvort sem thad eru 500k eda 5M er etv. ekki adalmalid.

    Eg er sammala theim maetu monnum sem bentu a otharfa thess ad blasa FI einhverju misjofnu i brjost.

    Eg mun ekki geta maet ne tekid til mals a fundinum thar sem eg by i Bretlandi, en eg er virkilega anaegdur med stjorn ISALP ad lata sig malefni skalans varda. Hvet felagsmenn til ad maeta, kynna ser malefnid og taka afstodu sem somi er ad.

    Bestu kvedjur
    Halli

    #51978
    0312487369
    Meðlimur

    Lokainnlegg frá mér hér á spjallsvæðinu:

    Málið er greinilega í höndum stjórnar og svo félaga þegar hér er komið, eftir miklar umræður á netinu, og vissulega eðlilegt að gerð sé ljós grein fyrir helstu atriðum þess svo allir séu með á nótunum.

    En tvennt verður þó að árétta. Hið fyrra er þetta: Menn velta fyrir sér virði skálans og tengja það breyttum viðhorfum og auknu verðmæti útivistarsvæða. Ég get ekki betur séð en virði skálans sem slíks sé lágt vegna þess að hann er gamalt og lítið bárujárnshús í varla meðalásigkomulagi. Sögulega verðmætið er ekki hægt að hengja verðmiða á. Skálanum fylgir ekkert land þannig að kaup eða sala þessarar eignar hefur ekkert með verðmæti útivistarsvæða að gera (raunar veit ég ekki hver gaf leyfi fyrir byggingu hans 1945). Á tilvist hans hvílir aðeins hefðarréttur og hann getur ekki tryggt neinum aðgengi að Tindfjöllum umfram það að hann og aðeins hann er notendum opinn meðan eigandinn vill og skálinn stendur, líkt og gildir um flesta aðra fjallaskála og sæluhús. Hér er ekkert að framreikna eða meta til landvirðis. Eigendur hinna skálanna ráða engu í Tindfjöllum að því að ég best veit.

    Hitt atriðið varðar þessa tilvitnun í innlegg hér að framan:

    „FÍ er ekki að hugsa um hag ÍSALP í þessu máli né fjallamanna, heldur að geta selt í sínar ferðir….Held að FÍ sé frekar að falast eftir svæðinu/landinu en sjálfun skálanum sem er nú ekki ýkja stór.“

    Vandséð er á hverju þessi tortryggni og vissa fyrir illum tilgangi FÍ hvílir (þetta mál snýst greinilega um meira en ÍSALP og innri mál klúbbsins). Ef hún byggir á þeim misskilningi að eigandi skálans eigi land í Tindfjöllum eða að hann geti með notkun skálans ráðið fyrir heilu útivistarsvæði, er skiljanlegt að menn sjái ofsjónum yfir svona vistaskiptum Tindfjallaskála – einkum ef FÍ er gert að holdgervingi græðgisvæðingar og sérhyggju.
    Þakka fyrir mig.

    Ari Trausti

    #51979
    1908803629
    Participant

    Til upplýsinga mun stjórn Ísalp funda bráðlega þar sem svör við þessum fjölmörgu spurningum verður vonandi svarað.

    Annars vona ég að félagsmenn átti sig á því að hvatinn á bak við þessar tillögur var einn. Það er að bæta aðstöðu félagsmanna í skálanum til frambúðar. Þetta tilboð frá FÍ var lausn sem við töldum mjög fýsilega og bárum því undir ykkur félagsmenn. Við töldum tímann nægan til ákvarðanatöku en hann hefur greinilega farið eitthvað fyrir brjóstið á mörgum og furðulega margar samsæriskenningar hafa læðst á yfirborðið á mjög skömmum tíma.

    Ég er ánægður hve virk umræðan hefur verið enda fátt mikilvægara. En á sama tíma hvet ég félagsmenn til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu og nálgast umræðuna út frá því sjónarmiði að bæði stjórn Ísalp og stjórn FÍ hefur einlægan vilja til þess að gera hlut félagsmanna Ísalp sem bestan. Hugsanlega er þetta ekki besta lausnin sem við lögðum til en það kemur í ljós að lokum. Sjálfur hef ég mikla trú á þessari aðkomu FÍ og tel hana veita skjótastan ávinning og jafnframt langtímalausn.

15 umræða - 1 til 15 (af 15)
  • You must be logged in to reply to this topic.