Ísklifurfestivali lokið

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Ísklifurfestivali lokið

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #45043
    AB
    Participant

    Þá er ísklifurfestivalinu lokið þetta árið. Mætingin var nokkuð góð og á laugardeginum héldu 19 manns í klifur í Naustahvilft ofan flugvallarins á Ísafirði. Þessi hópur samanstóð af mörgum reyndum klifrurum og einnig mörgum lítið eða alveg óreyndum. Fljótlega kom í ljós að snjóalög voru vægast sagt ótraust en menn höfðu mismiklar áhyggjur af því og reynt var að velja sem öruggasta leið upp að ísleiðunum. Brekkurnar í hvilftinni eru brattar og langar og tók drjúga stund að nálgast leiðirnar. Ofarlega í brekkunni kom fremsti maður að klettahrygg og brölti upp hlíðina vinstra megin við hann. Ég var honum næstur en þegar ég steig í sporin hans, gaf snjóþekjan undan og flóð fór af stað. Ég svamlaði í jaðri flóðsins en náði að halda mér í klettinn og slapp með skrekkinn. Mér varð ekki um sel og hef sjaldan orðið jafn skelkaður á ævinni. Á þessum tímapunkti fannst mér eina vitið að snúa við. Margir vildu þó halda áfram og kíkja út fyrir næsta horn og sjá hvernig restin af leiðinni upp að ísnum liti út. Lítið flóð féll svo aftur á svipuðum stað og það fyrsta en enginn lenti í því.
    Þegar komið var út fyrir næsta horn sást betur að öll snjóþekjan í skálinni undir leiðunum var gríðarlega ótraust. Þarna ákvað ég að snúa við ásamt nokkrum fleirum. Ég bakkaði niður lítið haft, framhjá Russel Baker, breskum strák sem þarna var, að ég held, í sinni fyrstu klifurferð fyrir utan ísklifurnámskeið hjá Ísalp. Þegar ég var rétt kominn framhjá honum heyrði ég hróp og áttaði mig á því að flóð væri farið af stað. Ég og einn mér við hlið, stukkum til hliðar, undir klettahaft og flóðið fór hjá á miklum hraða. Ég leit upp og fljótlega áttuðu menn sig á því að Russel Baker var horfinn. Einhver kallaði og sagðist sjá til hans, hann hefði ekki grafist, væri staðinn á fætur og virtist ekki vera stórslasaður. Hann hafði borist um 250-300 m með flóðinu. Ég dreif mig niður og á undan mér voru nokkrir sem litu á Russel sem stóð stjarfur og var í sjokki. Menn tóku að tínast niður úr fjallinu en 6 eða 7 urðu eftir og héldu áfram til að klifra. Baker reyndist vera óslasaður fyrir utan eymsli í mjöðm. Það verður að teljast ótrúleg heppni miðað við umfang og hraða flóðsins, auk þess sem hann var í broddum.
    Í fyrstu varð ég mjög reiður þeim sem ákváðu að halda áfram og koma ekki niður. Að vísu var brekkan nokkuð örugg eftir að hún hreinsaði sig en mér fannst það furðulegt að halda áfram eftir 3 snjóflóð, þar af eitt sem tók með sér mann niður brekkuna. Eftir því sem ég hef hugsað meira um þetta hef ég orðið ósáttari með ýmislegt í þessari ferð. Fyrst og fremst er ég reiður sjálfum mér fyrir að hafa íhugað að halda áfram þrátt fyrir skýr merki um mikla hættu. Ég treysti ekki minni eigin dómgreind 100% og skammast mín fyrir það.
    Það sem mér finnst alvarlegt, er að áður en stóra flóðið féll voru margir enn á leið upp, jafnvel með óreynda menn með sér. Það var maður á uppleið sem setti flóðið af stað og maður á niðurleið sem lenti í flóðinu. Í snjóflóðaaðstæðum með svona mörgu fólki þá er það ekki bara mál hvers og eins hvað hann gerir. Mér finnst það líka vanvirðing við þann sem lendir í snjóflóði að einhverjir haldi áfram, jafnvel þó hættan hafi minnkað eftir flóðið. Skilaboðin eru sú að það sé ekkert tiltökumál þó einhver berist hundruði metra með snjóflóði og að þig varði ekkert um líðan hans eða meiðsli.

    Festivalið hélt svo áfram, pizza um kvöldið hjá flestum og ágætis klifurdagur á sunnudeginum þar sem ein ný leið var farin. Í heild var þetta hin besta skemmtun sem hefði getað orðið enn betri með meiri skynsemi.

    Ástæða þess að ég skrifa þetta er einfaldlega sú að það er mikilvægt að reyna læra eitthvað af þessu og er umræða lykilatriði í því. Þetta var óhapp sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

    Kveðja, Andri

    #48467
    2304815479
    Meðlimur

    Sælir og takk fyrir síðast.

    Já ég er nú sammála mörgu sem Andri segir hérna í greininni.
    En ég var sjálfur einn af þeim 6 sem héldu áfram og klifruðu í þessum blessaða ís.

    Það að við höfðum ekki snúið við eftir eða jafnvel fyrir fyrsta flóðið er eitthvað sem ég get sennilega ekki svarað, mér datt í hug að snúa við eftir fyrsta flóðið og áður en stóra flóðið féll var ég nokkuð viss um að snúa við, nema að það væri pottþétt örugg leið upp að ísnum fyrir ofan næsta horn.

    Þegar þangað var komið féll stóra flóðið og hvilftin bókstaflega tæmdist, það var frekar óljóst hjá okkur hvort einhver hafði lent í flóðinu, því við sáum ekki niður til þeirra sem voru fyrir neðan okkur. En síðan skyldist okkur að Russell hafi runnið „aðeins“ með því en getað stoppað sig.
    Þarna vissum við ekki að hann hafi farið alla leið niður með flóðinu, en vissum að það hafði enginn slasast og enginn grafist í flóðinu.
    Á þessum tímapunkti var ég alveg á því að snúa við.
    En síðan eftir að hafa rætt við þá sem voru í kringum mig, og það var þegar einn kominn alla leið upp að ísnum, sáum við að það var nánast enginn snjór eftir til að falla nema stálið sem var alveg upp að ísnum, ákváðum nokkrir af okkur að halda áfram og setja fasta línu við ísinn þannig að ef stálið myndi hrynja værum við tryggðir.

    Þetta gerðum við og klifruðum við eina spönn í ísnum og snérum síðan heim á leið.

    Það sem ég held að hafi skert dómgreindina hjá okkur er sú staðreynd að menn voru komnir hingað langt að til dæmis frá Ástralíu og flestir búnir að keyra í 9 klukkutíma frá RVK.
    Það gerði okkur, allavega mig, töluvert ákafari að komast alla leið en annars hefði verið. Ef þetta hefði verið venjulegur laugardagur hefði ég aldrei gengið svona langt.

    Annað sem ég held að hafi skert dómgreindina hjá okkur er það að þarna voru samankomnir mjög margir klifrarar og margir mjög reyndir, það var enginn einn sem var að stjórna og taka ákvarðanir, ég held að það sé hugsanlega hægt að kalla þetta „rollueinkenni“ þegar allir elta þann fyrsta og þessi fyrsti kann ekki við að stoppa því allir eru að elta hann og enginn segir skýrt NEI nú skulum við aðeins stoppa, enda kannski erfitt því þarna eru allir á sínum eigin vegum.
    En reyndar áður en td ég fór ofar þá voru svíarnir og Andri búnir að ákveða að snúa við, en ég gerði eins og nokkrir aðrir fór AÐEINS lengra til að skoða hvernig þetta væri hinum megin við næsta horn.

    En sú ákvörðun okkar að halda áfram og klifra í þessum ís sem við vorum að stefna að, tel ég ekki hafa verið ranga miðað við hver snjóflóðahættan var eftir að allur snjór hafði hrunið niður, og við gerðum okkur EKKI grein fyrir því að einhver hafi lent almennilega í flóðinu fyrr en seinna.
    Ef við hefðum vitað að Russell hafi farið niður með flóðinu og lemstraður eftir það, er ég nokkuð viss um að við hefðum allir snúið við.

    Ég skammast mín fyrir að hafa ekki snúið við í tæka tíð og hlustað á þær aðvaranir sem við fengum, því þær voru nokkuð margar.

    Kveðja
    Hörður Harðarson

    #48468
    0304724629
    Meðlimur

    Sæll Andri

    Þetta eru áhugaverð skrif hjá þér. Ég var reyndar að komast að því í dag að maður hefði borist með flóðinu niður!!!
    Samkvæmt þeim uplýsingum sem ég og þeir menn sem voru efst fengu, hafði ástralinn lent aðeins í jaðrinum á flóðinu en tekist að stökkva út úr því eftir nokkra metra. Ég var greinilega alveg að misskilja þetta. Ég var sammála þér að snúa við eftir flóðið og kallaði það til efstu manna að snúa við. Hinsvegar áttum við einungis 20 metra upp að ísnum og hægt að koma sér vel fyrir bakvið stórt kerti og sötra teið, sem við og gerðum. Síðan átti að halda niður. En þegar menn tóku að róast (en þar var ástralinn með í för. Ekki furða að hann var svona rólegur fyrst hann lenti ekki í flóðinu), var ákveðið að klifra eina spönn eða svo til að gera eitthvað úr deginum. Varð úr hin besta skemmtun, en eins og ég segi, þá hafði ég ekki hugmynd um að þetta hefði staðið svo tæpt eins og þú segir og víst að við hefðum snúið við og hugað að bretanum Russel ásamt öðrum. Á sunnudeginum var ég að forvitnast hvar Russel væri vegna þess að ég sá hann ekki. Mér var sagt að hann væri að hvíla sig eftir laugardaginn og ég hugsaði með mér að hérna væri ekki mikil hetja á ferð sem gæti ekki farið á fjöll tvo daga í röð!!!
    En nú veit ég hið rétta. Það var reyndar hringt í mig frá bb.is sem er lókal fréttavefurinn hér á Ísafirði. Blaðamaður spurði mig hvort að maður hefði borist alla leið niður með snjóflóði í Naustahvilft á laugardeginum. Ég sagði við hann að það væri algjör vitleysa og hér væri greinilega búið að stórlega ýkja söguna. Nú er hægt að lesa lygasögu mína á bb.is sem ég hélt að væri sannleikurinn. Höddu hringdi síðan í mig og spurði hvern fjandann ég væri að bulla og ég kom bókstaflega af fjöllum.

    Já það má örugglega læra af þessu og það sem mér finnst kannski eitt sem ætti að spá í, er að þegar hópurinn er jafn breiður og hann var í þetta sinn; allt frá nánast byrjendum upp í atvinnumenn, þarf að tryggja það að einhver hafi umsjón með þeim sem eru skemur komnir í sportinu. Því ef slys gerast við svona ,,official“ aðstæður í nafni klúbbsins er það slæmt og gæti orðið hafarí.
    Það hefði að vísu ekki breytt neinu hér um en kannski hefði verið meiri stjórn á þessum höfuðlausa her sem þrammaði þarna upp Erninn. Já þetta var höfuðlaus her sem enginn hafði beðið mig eða einhvern annann að stjórna. Kannski hefði maður átt að taka af skarið. Gott að vera vitur eftir á.

    Ég vill enda þessa löngu ræðu á því að þakka þeim sem heimsóttu okkur sveitalarfana um helgina. Það eru allri velkomnir hvenær sem er.

    p.s. Einar Öræfingur og svíarnir fóru ansi sæta leið í Seljadal á sunnudeginum meðan við Eiríkur ákváðum að máta okkur við tesmökkun og myndatökur í hæfilegri fjarlægð.

    Góða stundir

    rok

    #48469
    AB
    Participant

    Gott að heyra frá ykkur! Ég held að allir hafi dregið einhverjar ályktanir af þessum degi og lært af mistökunum. Ég er sammála Herði um að dómgreindin hafi sljóvgast við það að vera kominn langt að til að klifra, löngunin varð kannski skynseminni yfirsterkari. Þegar margir eru á ferð getur maður einnig upplifað falska öryggiskennd, líkt og maður sé meira ,,safe“ með fullt af fólki í kringum sig.
    Held að það sé rétt hjá Rúnari að þegar svona breiður hópur fer saman til fjalla þurfi einhver að vera við stjórnvölinn. Það er einnig rétt að svona vesen getur verið slæmt fyrir klúbbinn, ég heyrði frá Reykvíkingi sem var veislustjóri á þorrablóti á Súðavík og tjáði hann mér að fólk hefði beinlínis orðið bálreitt þegar það frétti af einhverjum ,,vitleysingum að sunnan“ sem voru í Naustahvilft að leika sér eftir snjókomu undanfarna daga og töldu einhverjir víst að þetta myndi enda illa. Veit nú ekki hvort nafn klúbbsins hafi borið á góma en svona getur verið slæmt fyrir orðspor hans.

    Ég vil að lokum þakka fyrir mig, þetta var góð helgi. Ekki spurning að maður kemur aftur innan skamms því ekki vantar klifurmöguleikana fyrir vestan!

    Kveðja, Andri

    #48470
    2607683019
    Meðlimur

    Ég er ánægður með þig Andri, að koma með þessa umræðu hérna upp. Svona mistök eru mjög dýrmæt, því að margir geta lært mikið af þessu og ef allir hefðu bara þagað yfir þessu þá hefðu það bara verið við sem vorum á staðnum sem lærum af þessu öllu. Ég var hálf skömmustulegur sjálfur yfir að hafa verið þarna og ekki farið fyrr niður, og ég er ofboðslega þakklátur að þetta fór ekki verr.

    Ég er mjög sammála Rúnari Óla með að við ættum að ákveða á næsta festivali einhvern „höfuðsmann/menn“ á ísklifurherinn, sérstaklega með tilliti til snjóflóða og hrunhættu.

    Ég þakka svo fyrir frábært festival, setti nokkrar myndir af Krister Jonson að taka cruxið í leiðinni á sunnudeginum á http://www.hofsnes.com

    #48471
    Siggi Tommi
    Participant

    Sammála flestu hér að ofan og leiðinlegt hvað samskiptin virtust fara fyrir ofan garð og neðan.
    Með samskiptaleysi þá meina ég að þeir sem voru efst vissu ekki hversu alvarlega salibunu Russell fór með flóðinu og skildist að hann hefði komist út úr því strax.
    Hitt er svo aftur að málið var ekkert rætt þegar komið var niður á Ísafjörð aftur og sumir á staðnum vissu ekki einu sinni almennilega hvað hafði gerst (fréttu það ekki fyrr en nú í vikunni).
    Þar sem ekki er um fararstýrðar og formlegar ferðir að ræða í svona viðburðum og fólk á staðnum á mjög misjöfnum aldri (frá 17-40 ára) og með mismikla reynslu (frá algjörum byrjendum til þaulreyndra klifrara), þá er væntanlega erfitt að hafa eitthvert æðstavald sem ákveður blátt áfram hvað eigi að gera. Held þó að þeir reyndustu eða þeir sem þekkja aðstæður á staðnum (alls ekki að skjóta á heimamenn eða þá reyndari í hópnum, heldur meina almennt séð) væru heppilegastir til að vera ráðgefandi og sýna fordæmi með því að taka mið af aðstæðum (snúa við ef þurfa þykir). Það er svo alltaf undir hverjum einstaklingi komið hvort þeir láti segjast og snúi við því menn eru þarna á eigin ábyrgð en menn verða þó að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því að mistök hjá þeim geta haft áhrif á aðra og/eða skaðað t.d. ímynd klúbbsins eða fjallamanna almennt. Mikið í húfi s.s. bæði hvað varðar heilsu fólks og líf og ímynd okkar, sem er líklega mjög viðkvæm og mikilvægt að halda góðri úti í þjóðfélaginu.

    Gott mál samt að ekkert alvarlegt gerðist og þetta er vonandi eitthvað sem menn læra af, bæði hvað varðar mat á aðstæðum og eins varðandi skipulag almennt (hausatalningu og heilsutékk manna á milli ef eitthvað bjátar á).
    Þó þetta hafi verið skuggalegt allt saman, fáránlega mikil keyrsla (10+8 tímar með einhverju tjóni á bílnum…) og frekar litlu ísklifri, þá var þetta mjög lærdómsríkt og gaman að taka þátt í svona viðburði. Vonandi að maður sjái sér fært að mæta að ári!

    Tók eitthvað af myndum sem ég vonast til að koma yfir á mínar síður á næstu dögum (kemur í ljóst hvort eitthvað bitastætt er þar að finna).

    #48472
    Karl
    Participant

    Það er bráðnauðsynlegt að að taka á þessu fararstjóramáli.
    Olli er að verða FIMMTUGUR og því nauðsynlegt að hafa gætur á alzheimernum hjá manni sem hlotið hefur fleiri höfuðhögg en meðaltals hnefaleikapúði………

7 umræða - 1 til 7 (af 7)
  • You must be logged in to reply to this topic.