Re: svar: Þilið

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Þilið Re: svar: Þilið

#48252
AB
Participant

Vil þakka þeim sem komu á móti okkur.

Eins og fram hefur komið mátti litlu muna að farið hefði verr. En eins og við Ívar höfðum rætt fyrr um daginn, virðast hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel. Þó fátt sé skemmtilegt við að skerast á læri verður það að teljast vel sloppið miðað við allt og allt.

Það er eflaust hægt að læra margt af þessu. A.m.k. tek ég fleiri slinga með næst, blóðugt að þurfa skera línuna hans Ívars til að komast niður, en enginn haldbær ís var uppi á brún. Það var hrikaleg sjón að sjá spönnina svona gerbreytta og ég hefði aldrei getað trúað því að allt þetta myndi hrynja, ég hafði sérstaklega gætt mín á að skrúfa ekki í kertið en skrúfan sem ég setti inn þar fyrir ofan hefði hrunið með og togað okkur niður ef Ívar hefði ekki verið búinn að fjarlægja hana.

Annars er spurning hvort fólk eigi yfirleitt að klifra með mér. Þetta er í annað sinn á hálfu ári sem eitthvað stórt og mikið hrynur þegar ég er að tryggja félagann upp til mín, fyrst í Kerlingareldinum þar sem Óli Raggi slapp naumlega og svo þetta í gær. Ja, svei.

Svo þetta með símana, í gær var gott að vera með GSM. Ég heyrði ekkert þegar allt matrixið hrundi sökum hvassviðris upp á brún, fann bara að Ívar datt og gerði ráð fyrir því að hann héldi svo áfram. Án símanna hefði tekið talsvert lengri tíma fyrir okkur að komast niður, auk þess sem við hefðum þurft að skakklappast út blessaðan dalinn. Mér hefur oft fundist það hálfgert svindl að hafa samskipti í gegnum síma í klifri en í svona aðstæðum er slík hugsun fjarri.

Og eitt lærði ég í viðbót: Mikið helv… er Þilið flott leið.

P.s. Ég spái því að Ívar verði farinn að berja sig upp ís innan margra daga. Hann er nú harður af sér kallinn, þrátt fyrir hans eigin yfirlýsingar um skort á jaxlamennsku:)

Kv, Andri