Hardcore í tjaldi

Home Umræður Umræður Skíði og bretti Hardcore í tjaldi

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #47453
    Karl
    Participant

    Sæll Hardcore,

    Af hverju varstu að hírast í tjaldi þegar kostur var á þurru og hljóðeinangruðu snjóhúsi?

    kv,
    Sófariddarinn

    #54144
    0510815879
    Meðlimur

    Snjóhús eru eftir minni reynslu sjaldan þurr. Auk þess er bara flottara að vera í tjaldi – og maður verður alltaf að passa kúlið!

    kv.
    Tjaldcore

    #54145
    2806763069
    Meðlimur

    Já, þetta var náttúrulega ekki skrifað af Arnari heldur mér í tölvunni hans. Sorry Arnar!

    kv.
    Tjaldcore

    #54146
    Karl
    Participant

    Kúlið……-er það fólgið í skjálfta?

    #54147
    0801667969
    Meðlimur

    Hvaða rugl er þetta Ívar. Miklu meiri stæll að grafa sig í fönn. Eina skipti sem ég man eftir að snjóhús hafi verið blautt var þegar ég fór í plastpoka í holunni sem ég hafði grafið. Plastpokinn var reyndar seldur sem bivakk poki af ódýrustu gerð úr Skátabúðinni sálugu. Hann andaði ekkert enda ódýr.

    Hafði vit á því fyrir rest að segja skilið við heimskuna, fara úr bivakkplastpokanum og í svefnpokann og þá varð allt þurrt og hlýtt. Þarna voru þrjár holur í skafli hlið við hlið. Í birtingu daginn eftir kom í ljós að skálinn í Botnum var nokkrum metrum fyrir neðan okkur.

    Þetta var nú fyrir daga GPS þegar ferðamennska var eingöngu fyrir kúl karla. Ef ég man rétt var Karl nokkur Ingólfs í með sína holu þarna líka. Sú hefur örugglega verið miklu háþróaðri en mín. Kannski með þurrkara líka?

    Kv. Árni Alf.

    #54148
    Karl
    Participant

    Ég skaut þessu fram til að ná upp umræðu um snjóhús.
    Undanfarna vetur hafa gönguskíðamenn verið hirtir upp á jeppum, þar sem þeir hafa hírst í tjöldum við slæman kost á jöklum eða hálendinu. Líklega er ekki nema mánuður síðan hópur var hirtur upp á svipuðum slóðum og Ívar.

    Sjálfum finnst mér fátt nöturlegra en að hírast í tjaldi í slæmu veðri.
    Ég hef góða reynslu af snjóhúsum og átta mig ekki á því hversvegna allir þessir gönguskíðamenn gerðu sér ekki snjóhús.

    Getur það verið að þeir sem kalla á hjálp úr tjöldunum hafi ekki reynslu af því að gera sér snjóhús á flötu landi?
    Eru kanski einhverjir aðrir sem gera sér snjóhús og eru þá ekki að kalla eftir hjálp og ferðast án fjölmiðlaathygli?
    Eða eru menn einfaldlega hættir snjóhúsagerð?

    Ef rétt er staðið að snjóhúsagerð, er raki ekki vandamál á meðan ekki rignir. Aftaka rigning og rok er versta veður sem finnst á jökli og líklega eina veðrið þar sem tjöld duga betur en snjóhús.

    Ef hitastig er undir núlli, veður er ekki verra en svo að tjöld fjúka ekki, hægt er að komast út úr tjaldi og inn í það aftur án þess að það rifni í tætlur, -þá er örugglega hægt að gera snjóhús og vera þar með laus úr kófi og hávaða.

    Gott snjóhús þar sem hægt er að sofa þægilega og sitja uppréttur við eldamennsku (gryfja með skíðaþaki), á flatlendi, á ekki að taka nema 1,5 klst í skítviðri.

    #54149
    Anna Gudbjort
    Meðlimur

    Ég bjó í 5 stjörnu snjóholu í nokkra daga í vetur og hef sjaldan haft það betra.

    Snjóholur all the way, bara ekki gleyma skóflunni fyrir utan, hehe.

    #54150
    0309673729
    Participant

    Ég svaf í allnokkur skipti í snjóhúsi fyrir mörgum árum. Dvölin var góð fyrir utan eitt skipti. Ég tek undir það með Kalla að það er ljúfara að sofa í góðu snjóhúsi en tjaldi.

    Við reistum þau yfirleitt í halla. Grófum holu niður og inn í hallann. Reistum lágan snjóvegg meðfram holunni. Notuðum skíðin og stafina sem sperrur ofan á veggina og hlóðum síðan snjókögglum ofan á. Loks þéttum við í öll göt.

    Stærðin af slíku snjóhúsi eða snjóskýli takmarkast af skíðunum og hversu langt maður getur/nennir að grafa inn í hallann. Það draup stundum aðeins úr miðju þakinu þegar við elduðum því skíðin svigna og þakið verður íhvolft niður á við. Ef ég man rétt þá vorum við gróft sagarblað með skafti til að saga hæfilega köggla í þakið. Fyrir opið út settum við snjóköggul eða bakpoka. Ætli byggingin hafi ekki tekið klukkutíma eða svo.

    Í það skipti sem vistin var ekki svo góð reistum við húsið í myrkri og logni. Um nóttina fór að skafa. Ég vaknaði síðla nætur með stóran skafl ofan á mér og átti í mestu vandræðum með að hreyfa mig. Svefnpokarnir hjá öllum urðu blautir og það tók tíma að finna allt draslið í snjónum. Okkur hafði yfirsést einhver göt á þakinu í myrkrinu og logninu.

    Ég hef aldrei gist í snjóhúsi í neinu aftaka veðri. Ég get ímyndað mér að það þurfi að þétta opið út vel svo ekki skafi mikið inn og þá eykst hættan á að húsið þéttist of vel.

    Það væri fróðlegt að fá nánari lýsingu á því hjá Kalla og fleirum hvernig best er að standa að snjóhúsagerð á flatlendi.

    með kveðju
    Helgi Borg

    #54151
    0801667969
    Meðlimur

    Ágæt lýsing á byggingu þessara flatlendissnjóhúsa í öðru tölublaði Landsbjargartíðinda 1990.

    Kv. Árni Alf.

    #54152

    Já bíðum nú við… fletti fletti flett. Ahh, hér er það, 19 ára gamla eintakið af Landsbjargartíðindum sem ég hef geymt samviskusamlega síðan ég var 15 ára. Vissi að það myndi koma að góðum notum einn daginn ;)

    #54153
    Sissi
    Moderator

    Hver er Kalli Ingólfs?

    Hvernig væri að þið mynduð skrifa grein um þetta í ársritið, sem er líklega einmitt í smíðum núna. Ég myndi amk lesa hana.

    Geri síðan ráð fyrir að Hardcore í tjaldi komi svipað út og Hardcore í snjóhúsi – Hardcore.

    Annars hef ég bara grafið holu og stungið mér inn í hana á einhverjum námskeiðum, held að ég hafi ekki einu sinni sofið í svona. Væri nú hressandi að testa þetta (þá helst við verndaðar aðstæður).

    Siz

    #54154
    Sissi
    Moderator

    Já og hahaha, Bjöggi er fyndinn.

    S

    #54155
    0703784699
    Meðlimur

    Þvílíka vitleysan sem þessi umræða er. Held að Kalli þyrfti að stúdera Hegel og að átta sig á að það eru oftast fleiri en ein hlið á hverju máli.

    Ef þú ert að ferðast í nokkra daga er ekki mjög líklegt að þú getir treyst á snjóhúsagerð alla dagana. Því er tjald tekið með. Ef ég væri með tjald að þá myndi aldrei koma til grein að eyða tíma í að moka snjóhús. Aftur á móti ef ég væri ekki með tjald myndi ég að öllum líkindum búa til snjóhús ef það væri hægt.

    Að búa til svo stórt snjóhús að maður standi uppréttur og sé með eldunaraðstöðu lýsir skammsýni þess sem það leggur upp, það tæki hálfann daginn að búa svo vel um mannskapinn hið minnsta.

    Hef sofið í snjóhúsum í heimalandinu sem og í Noregi. Lærði nýjar aðferðir við snjóhúsagerð af norðmönnum sem mun seint nýtast heima sökum mismunandi aðstæðna. Þar var ísinn töluvert harðari og var eingöngu notað við sög til að saga út miðjun og svo rétt skafið til hliða til að troðast undir (ekki mikill lúxus þar á ferð). Skarðsheiði, Tindfjöll og Botnsúlur buðu uppá annarskonar snjóhús, líkt og vitnað var í hér áður.

    Hef aldrei verið í snjóhúsi sem ekki lekur dropum ofaná mig, held að eðlisfræðin útskýri það ferli einfaldlega. Líkamshitinn bræðir snjóinn sama hversu kalt er úti, því jú tilgangurinn með snjóhúsagerðinni er að einangra kuldann úti sem mest og ná að hita upp pleisið.

    En að öðrum og eldri þræði þar sem spurt var um hvernig dýnu væri best að sofa á….að þá var samferðarfélagi minn í Noregi með góða lausn. Ég var í miðjum klíðum að lesa FAST AND LIGHT og því með hugann við að einfalda allt og hafa það sem léttast þegar norðmaðurinn mætir með 120lítra poka troðfullann og hreindýraskinn hangandi utaná. Ég með minn 45+15lítra klifurpoka á leið í 4 daga skíðaferðalag um hálendi Noregs vissi ekki alveg hvað maðurinn var að fara með öllum þessum farangri. En til að gera langa sögu stuttu að þá einangraði hreyndýraskinnið miklu betur en eðal loftdýnan mín og svaf kunninginn vært allar næturnar meðan ég skalf á milli þess sem dropanir láku á nefið á mér.

    kveðja úr hlýjunni að sunnan,

    Himmi

    PS: held að GI Joe sem var á ferð með mér seint á síðustu öld á Skarðsheiði myndi hafa óskað sér tjalds frekar en snjóhús þá nóttina……gleymi aldrei svipnum á manninum þegar ég vakna daginn og sé hann með blóðsprungin augun og illa sofinn greyið eftir að hafa þurft að fara yfir 20 sinnum út um nóttina til að losa númer 2 með tilheyrandi vinnu við að opna og loka gatinu á snjóhúsinu. Held að rennilásinn hefði verið betri.

    #54156
    Karl
    Participant

    Himmi, -hvar hef ég skrifað um snjóhús þar sem hægt er að standa uppréttur?
    -Eg talaði um snjóhús þar sem hægt er að SITJA og LIGGJA.

    Varðandi leka og raka í snjóhúsum þá er það spurning um loftræstingu og þakform.

    Snjóhús grafin í hengjur:
    Hér hafa gengið aftur teikningar af snjóhúsum þar sem megináherslan hefur verið á að hafa húsin eins hlý og hægt er.
    Mönnum hefur verið ráðlagt að hafa op eins neðarlega og hægt er og jafnvel verið ráðlagt að puða við að grafa húsin um eins þröng op og hægt er . Hús af þessari gerð eru bæði illgræf og vond til búsetu. Það er mikið fljótlegra að grafa hengjuhús um þokkalega stórt op svo svo hægt sé að standa þokkalega að verki.
    Það er kostur að hafa opið ofarlega, minni hætta er á að skafi fyrir opið og loftræsting er auðveldari. Síðan er öndun stillt með því að stinga göt með skíðastöfum þar sem það hentar.
    Kuldi er ekki vandamál en loftræstingu þarf að vanda.

    Varðandi snjógryfjur á flatlendi þá er grafinn ca 1,5 X 2,5 metra gryfja og efninu sem kemur upp hlaðið umhverfis hana. Gryfjan er látin breikka út til hliðanna. Síðan er skíðum, stöfum, sleðum og þ.h raðað sem þakbitum yfir gryfjuna og reft yfir með blokkum sem skornar hafa verið annarsstaðar og síðan kastað yfir snjó og þjappað eins og tök eru á.

    Æskilegt dýpt er þannig að hægt sé að SITJA uppréttur.
    Útfrá mjórri endanum, hlémegin, er grafið vik sem notað er sem uppganga. Nauðsynlegt er að þetta vik sé til hliðar við svefnrýmið. Þessu viki er lokað með bakpoka.
    Inni í snjóhúsið tekur maður exi og skóflu og jafnvel skíðastaf ef e-h er á lausu.
    Loftræst er með því að stinga göt upp úr þaki eða skáhalt upp um hliðar.

    Ég hef gert skýli af þessari gerð tvær nætur í röð í arfavitlausu veðri og átt þar ágæta vist. Þar er ég að tala um hvassviðri og háarenning þar sem vindurinn velti gjarnan púlkunum og töluvert skóf ofan í gryfjuna á meðan verki stóð. Dvölin fyrri nóttina var það góð að við tókum okkur upp og héldum áfram í verra veðri en daginn áður, þar sem við vissum að lítið mál væri að gera annað skýli sömu gerðar þegar kvöldaði.

    Ég var þarna með Árna Alf og Himma Aðalsteins. Við höfðum ekki grafið gryfju af þessari gerð sameiginlega áður og fyrri gryfjan tók okkur tvo tíma frá því að við stoppuðum og þar til allir voru komnir inn. Seinni gryfjan tók 1,5 klst.
    Þetta er líklega ekki nema klukkutíma verk í góðu veðri.

    Svo eru góðir kostir við snjóhús ss að ekki þarf nema hálfur uppúr pokanum til að skilja við no. 1. Og áður en skíðin eru tekin úr þakinu þá má skilja við no. 2 í skjóli.
    Tjöld eru svo ágæt í þokkalegu veðri.

    #54157
    0309673729
    Participant

    >Hver er Kalli Ingólfs?
    >Hvernig væri að þið mynduð skrifa grein um þetta í
    >ársritið, sem er líklega einmitt í smíðum núna.
    >Ég myndi amk lesa hana.

    Já það er full ástæða til að skrifa um þetta séríslenzka fjallaundur fyrir þá fáu sem ekki eru kunnugir því.

    Aftur að snjóhúsunum, Kalli stífluðust öndunargötin aldrei hjá ykkur?

    #54158
    Karl
    Participant

    Helgi, -jú öndunarop stíflast.
    Það skiptir mestu að hafa góða loftræstingu þegar verið er að elda oþh. Það er ágætt að opna bæði áveðurs og hlémegin á meðan prímusinn er í gangi. Síðan má loka áveðurs þegar farið er í pokana. Það þarf alltaf að spila loftæstinguna eftir eyranu.

    Það er spurning hvort Árni geti ekki endurbirt greinina sem hann skrifaði fyrir margt löngu.

    #54159
    2806763069
    Meðlimur

    Enn og aftur tekst mér að leysa úr læðingi óstjórnlega tjáningu.

    Bið þá saklausu afsökunar á því.

    kv.
    Hardcore

    #54160

    Fyrir hönd stjórnar, ritstjórnar ársritsins og áhugasamra félaga Ísalp… óska ég hér með eftir að Kalli og Árni skrifi grein í næsta ársrit um snjóhúsagerð við íslenskar aðstæður. Held það sé engin spurning að sú grein yrði mikið lesin.

    Ekkert að því að byggja hana að einhverju leyti á gömlu greininni, eflaust atriði þar sem eru í fullu gildi. En jafn vafalítið er fullt af nýjungum sem má greina frá, sem sagt uppfæra hana með nýjustu trendunum.

    Myndir og/eða teikningar væri gaman að hafa með.

    Hlakka til að lesa…

    Koma svo allir, skorið á kappana að láta verða af þessu.

    #54161
    0801667969
    Meðlimur

    Þetta spjall minnir mig á Suðurjöklahring 1983. Lentum á fjórða degi í kolvitlausu veðri efst á Eyjafjallajökli. Okkur tókst að komast vestur fyrir gíginn og ætluðum að grafa okkur niður. Gjörsamlega útilokað hefði verið að koma upp tjaldi auk þess sem það hafði týnst í veðurofsanum fyrr um daginn. Svo hart var færið að þó við notuðum ísaxir til að grafa þá komust við ekkert niður úr harðfenninu. Fukum bókstaflega niður jökulinn undan austanáttinni og enduðum í gili sem skóf ofan í. Þar var skafl sem við grófum okkur inn í á skömmum tíma.

    Vorum þarna þrír saman. Ég lenti innst í holunni og eitthvað erfitt var að komast út svo ég neyddist til að míga í hitabrúsann (Thermos) minn ofan í svefnpokanum án þess að nokkur tæki eftir. Ekkert blotnaði. Annars var þetta fín vist. Hlustuðum á lestur Passíusálma allt kvöldið. Var lengi kallaður Brúsi eftir þetta. Um þetta afrek má lesa grein í einhverju gömlu ÍSALP riti.

    Á rokrassgatinu Íslandi þá er það oft á tíðum eini möguleikinn að grafa sig niður því að tjalda er einfaldlega ekki í boði. Gildir einu hvort sem það er á flatlendi, brekku eða í hengju. Slíkt er oftast lúxusvist miðað við að liggja í tjaldi. Ólíkt Sizza þá hef ég neyðst til að grafa mig niður í allnokkur skipti.

    Snjóhúsagerð er oftast möguleg með undantekningunni í óvenju hörðu færi eða ís. Man eftir snjóhúsagerð í örþunnri lausmjöll ofan á ís undir Guðnasteini (eini skaflinn á jöklinum). Þetta tókst en menn þurftu að óla sig fasta við axir og skrúfur til að renna ekki út úr húsinu og niður að Seljavöllum.

    Kv. Árni Alf.

    P.S. Er hægt að gera þessi gömlu rit aðgengileg á netinu. Ómetanleg heimildir og áhugavert fyrir yngra fólkið að lesa.

    #54162
    0703784699
    Meðlimur

    Himmi, -hvar hef ég skrifað um snjóhús þar sem hægt er að standa uppréttur? Kalli: „sitja uppréttur við eldamennsku“

    Maður verður aðeins að krydda hlutina til að fá almennilega umræðu, eldhús og standa er ekki svo langt frá því að sitja uppréttur við eldamennsku.

    Svo má alveg misskilja þetta ef menn vilja, „Það er mikið fljótlegra að grafa hengjuhús um þokkalega stórt op svo svo hægt sé að standa þokkalega að verki. „

    Kóf er ekki vandamál í þeim tjöldum sem ég hef hýrst í, en hávaði er það.

    Kalli segir “ Aftaka rigning og rok er versta veður sem finnst á jökli og líklega eina veðrið þar sem tjöld duga betur en snjóhús.“ Skil ekki tilganginn í þessum þræði þegar svarið liggur í þessari setningu.

    Snjóhús eru góður kostur og gott að kunna til verka þegar á þarf að halda en verður seint nýtt sem aðalkostur. Veður og snjóalög eru bara ekki nógu stöðug til að geta treyst á þann kostinn. Einn daginn getur fína plastskóflan brotnað meðan næsta dag flýgur hún í gegnum slabbið. Held ég kjósi tjaldið þá frekar og notist við snjóhúsin í neyð.

    Af hverju er þá ekki spöruð þyngd á heimskauta og grænlandsleiðangrum með því að búa í snjóhúsi allan tímann? Spyr sá sem ekki veit.

    kv.Himmi sem klárlega hefur ekkert betra að gera

    #54163
    Björk
    Participant

    Má ég spyrja að einu?

    Hef held ég bara 2x gist í snjóhúsi og bæði skiptin á námskeiðum og leið bara vel.

    Þegar maður leggst á koddann (úlpu) í snjóhúsi byrjar maður að hugsa…. er engin hætta að þakið pompi ofaná mann?

    #54164
    0801667969
    Meðlimur

    Ef menn hafa ekki orku í að moka sér hús að kvöldi þá eru þeir annaðhvort búnir að fara of langt eða eru líkamlegir aumingjar. Svo eiga menn að vera með almennilega skóflu ekki eitthvað plastdrasl sem sjaldnast virkar t.d. í harðfenni. Nú fer ég að skilja af hverju svona margir túrar fara út um þúfur. Menn eru hættir að kunna að bjarga sér.

    Kv. Árni, alltaf mestur og bestur.

    #54165
    0902703629
    Meðlimur

    Oo, Þetta er svo skemmitlegt, bara að minna ykkur á að það er nógur snjór í Eyjafirði til að skíða og að búa til snjóhús, niðurgrafin, inngrafin og hlaðin upp…

    …en til að forðast að loftgötin lokist, þá hafði maður einn skíðastaf í gegnum loftopið, og með einu handtaki náði maður að hækka loftopið með því að ýta skíðastafnum lengra upp í gegnum þakið ef snjósöfnun var mikil á þakin…það gekk amk alltaf í þau skipti sem ég hef sofið í snjóhús ef maður mundi eftir að gera þetta.

    kv. Bassi

    #54166
    0902703629
    Meðlimur

    Sorrý þetta var hinn helmingurinn sem skrifaði þetta hér að ofan en ekki KIV.
    kv.
    Bassi

    #54167
    Karl
    Participant

    Himmi, -Ég er ekki að leggja til að menn leggi tjöldin á hilluna. Ég er einfaldlega að segja að í skítviðri á jökli sé yfirleitt mun betra að dvelja í snjóhúsi en tjaldi. Auðvitað er blíðan best og þá eru tjöldi fín. Bendi þér svo enn og aftur á að lesa pistlana þar sem ég minnist ekki á að standa uppréttur við gröft fyrr en eftir að þú skrifaðir þinn pistil um meint manngeng snjóhús

    Varðandi heimskautaharkið þá er er veður mun stabílla þegar komið er langt frá opnu hafi og virkum varmadælum á við golfstrauminn. Þetta hefur í för með sér að úrkoma er minni, fannburður er minni oþh. Menn eru því betur komnir í tjaldi meirihluta dvalartímans. Allir hafa þó skóflur meðferðis.

    Inúítar í Kanada og á Vestur Grænlandi bjuggu í Iglo á vetrum eða þessum klassísku hvolflaga snjóhúsum. Þeir völdu þetta framyfir tjöld þar sem snjóhúsin eru hlýrri og óþarfi að bera með sér snjóinn á milli náttstaða.

    Það er hinsvegar engin hefð fyrir vetrarbúsetu í snjóhúsum á Austur Grænlandi. Ástæðan er að þar gerir umhleypingar líkt og hér og hlaðin snjóhús endast stutt í slagviðri (spyrjið bara Einar-Rennurhratt)

    „Hengjusnjóhús“ úr þéttum snjó getur staðið af sér umtalsvert slagviðri og verið þurrara en tjald en ég hef litla trú á að „gryfjusnjóhús“ á flatlendi sé góður kostur í mikilli rigningu.

    Björk,
    Varðandi burðargetu þá verða men bara að grafa og öðlast reynslu af því hvernig mismunandi snjór hagar sér og læra að varast hvað léttur og auðgræfur snjór sígur hratt.

    Árni minntist á að hjarn og snjóleysi komi í veg fyrir snjóhúsagerð og það eru ekki ný sannindi.
    Það hafa ábyggilega margir heyrt hrakningasögur sem innihéldu frasann “ ekki var nægur snjór eða of harður til að grafa sig í fönn“.

    Bassi er hinsvegar með langbesta innleggið, -hljómar ekki spáin uppá að fara nokkrar salibunur upp Kaldbakinn á fjallhíf….

25 umræða - 1 til 25 (af 25)
  • You must be logged in to reply to this topic.