Reply To: 100 leiðir í Stardal! Hvað næst?

Home Umræður Umræður Klettaklifur 100 leiðir í Stardal! Hvað næst? Reply To: 100 leiðir í Stardal! Hvað næst?

#70100
Siggi Richter
Participant

Ég bíð spenntur eftir fundarboði ef einhver fjöldi fólks ætlar að hittast og ræða málin!

Þar sem mér sýnist þetta aðallega ætla að snúast um boltun topptrygginga yfir leiðum, ef á að verða einhver raunveruleg umræða um þetta langar mig að koma með nokkur mótboð á móti akkeristillögunum.

Þetta snýr að sjálfsögðu bara að boltun akkeristrygginga, persónulega tek ég ekki undir nokkrum kringumstæðum í mál að verði settur einn einasti bolti í klifurleið, sama hversu illtryggjanleg leiðin er! Ef leið er það illtryggjanleg að einhver þorir ekki að klifra hana án bolta, þá á sá einfaldlega að skoða einhverjar aðrar leiðir, nóg er nú í boði af auðtryggjanlegum leiðum í dalnum. Sama á við um ófarnar illtryggjanlegar leiðir, en þá er bara að láta leiðina vera og leyfa seinni kynslóðum sem kannski verða minni hænuhausar að gefa leiðunum séns þegar að því kemur.

Tillögur fyrir topptryggingar:
1. Ég er almennt frekar mótfallinn akkerum fyrir neðan brún af nokkrum ástæðum:
– Oftar en ekki sem brúnin er laus/vandræðaleg og býður sjaldan upp á augljósa/örugga staði fyrir akkeri.
– Oft er hluti af klifrinu að komast upp fyrir brún, þar sem margar leiðanna eru alls ekki búnar þó klifrarinn geti stungið nefinu í toppskófina.
– Þetta er enn dótaklifursvæði. Þó sportklifurvæðing svæðisins sé slegin út af borðinu þýðir ekki að næsta lausn sé að gera þetta að ofanvaðs-svæði.
– Ljótt.
– Töluvert magn af boltum sem þarf í slíkt þar sem erfitt er að nýta slík akkeri í meira en eina leið.
– Engu að síður er ég alveg sammála því að einhverjar leiðir séu vel til þess fallnar að hafa akkeri rétt fyrir neðan brún (sem mögulegt er þá að leyfa byrjendum að æfa sig í ofanvaði úr), en þau akkeri ættu að vera vel ígrunduð og algjör undantekning (mér dettur í mesta lagi í hug 10-15 leiðir sem henta vel í slíkt, þá nær eingöngu í Miðvesturhamri og Austurhamri).

2. Ég legg til að þetta yrði frekar á borð við fyrirkomulagið eins og það er í Gerðubergi, þ.e. að hafa bolta rétt ofan við brún. Á þann hátt er hægt að samnýta akkeri fyrir nokkrar leiðir í einu, lítið mál er að nýta boltana í ofanvað með slitþolnum akkerisspotta sem nær fram yfir brún, akkerin sjást ekki að neðan og þau gera um leið klifrið einnig öruggara og fljótlegra fyrir þá sem vilja enn klifra leiðir í klassíska stílnum, þ.e. að annar leiðir og tryggir næsta mann upp á topp að ofan. Á þennan hátt er einnig lítið mál að nota akkerin sem sigakkeri ef annar maður ætlar sér ekki að elta og hreinsa, en þá sígur sú/sá sem leiddi einfaldlega á tvöfaldri línu með eigin tóli (líkt og á v-þræðingu í ísklifri) og hreinsar, án þess að slíta línunni eða skilja búnað eftir á toppnum.

3. Engar keðjur eða karabínur. Legg til að í mesta lagi verða notaðir tveir sigboltar með hring sem akkeri til að gera akkerin minna sýnileg (og ódýrari), enda þungavigtar-sportakkeri með keðju og karabínum óþarfi; ef fólk getur ekki á annað borð þrætt í gegnum tvo sigrhringi í lok klifurs er dótaklifur því líklega einnig ofviða.

4. Hreinsa leiðir: legg til að farið verði fram á að þær leiðir sem fái bolta í akkeri verði í það minnsta yfirfarnar til að fjarlægja varasama steina, helst hreinsaðar ef þarf. Að minnsta kosti að þær leiðir sem fá “ofanvaðs”-akkeri fyrir neðan brún verða vel hreinsaðar og öruggar.

5. Skýrar reglur um boltun: legg til að það verði skýrt samkomulag um hvar verði akkeristryggingar, hvernig tryggingar og að nákvæmlega ekkert verði boltað umfram það fyrr en að ég geispa golunni. Einnig að skýrt tekið fram að þetta er EINGÖNGU fyrir akkeri (ekki svo mikið sem stakur byggingasaumur sem fær að vera í klifurleið, sama hversu illtryggjanleg leiðin er) og að þetta verði á ábyrgð Ísalp/Klifurfélagsins, þ.e. að enginn annar komi að boltun á svæðinu.

  • This reply was modified 2 years, 6 months síðan by Siggi Richter.
  • This reply was modified 2 years, 6 months síðan by Siggi Richter.