Ísklifurfestival 2016: gott veður og góðir vinir

Sorry, this entry is only available in Icelandic. For the sake of viewer convenience, the content is shown below in the alternative language. You may click the link to switch the active language.

12698483_10153552352664302_6334417868836987156_o

Nú er helgin liðin og árlega ísklifurfestival ÍSALP afstaðið. Um það bil 37 klifrar mættu í Kaldakinn helgina 12. – 14. febrúar og nutu þar einstakrar gestrisni heimamanna við býlið Björg.

Spáin hans Hlöðvers um gott veður stóðst að venju og lék veðrið við okkur alla helgina. Hitastigið var oftast rétt um frostmark yfir daginn og stöku sinnum sást meira að segja til sólar. Meðan maður stóð við ströndina og sleikti sólina mátti maður spyrja sig hvort hér væri í raun um ísklifurfestival að ræða. Gildir klifrið ef maður drepst ekki úr naglakuli á leiðinni? Reynsla klifraranna náði yfir allan skalann, allt frá grænum byrjendum í vetrarklifur ofurhetjur og skemmtu sér allir konunglega enda um nóg að velja í Kaldakinn.

Klifrað var alla daga og í öllum sektorum svæðisins. Vinsælast var fjöruborðið við svæðið Glassúr þar sem nærri allar mögulegar leiðir og afbrigði voru farin um helgina. Helst má nefna þar frumferðir Albert Leichtfried og Benedikt Purner á ísfossunum sem liggja út í sjóinn. Þar tímasettu þeir sig vel og sprettu á milli alda til að ná upp í Sex on the Beach WI5+ og Shooters WI4+. Matteo Meucci og Halldór Fannar reyndu einnig við nokkrar frumferðir á svæðinu en að góðri íslenskri venju kom í ljós að þetta hafði allt verið farið fyrir langa löngu.

Af öðrum svæðum má helst nefna frumferðir Albert Leichtfried og Benedikt Purner á X-files WI6/M6 í Stekkjastaur sektor og frumferð Arnars Þór Emilssonar og Sveins Eydals á Stönthrút WI4 meðan Freyr Ingi Björnsson og Haukur Már Sveinsson frumfóru Salómon Svarti WI4/5. Stekkjastaur sjálfur var klifraður einu sinni yfir hátíðina af Albert og Benedikt enda í mjög þunnum aðstæðum. Gáfu þeir honum WI6/6+ í núverandi ástandi. Sektor Girnd fékk fáar en góðar heimsóknir og voru þar frumfarnar tvær nýjar leiðir. Matteo Meucci og Halldór Fannar fóru leið sem þræðir nýtt kerti hægra megin við Upprisu Svínanna og fékk leiðin gráðuna WI5+. Albert og Benedikt létu sig ekki vanta og fóru nýja leið á milli Kostulega Postula og E300 sem nefnist Have no fear, have a skyr M7. Einnig má nefna að farnar voru leiðirnar Drífa, Íssól, Hlæjandi Fýlar, Faðir og Sonur, Dramb, Heimasætan ofl. fengu allar heimsóknir.

Á kvöldin var boðið upp á ljúffengan mat að Björgum og á laugardagskvöldið var einnig boðið upp á harmónikku- og gítar undirspil. Eftir að kláruð voru 6 lambalæri og öllu skolað niður með Kalda í boði Kalda þá hélt Albert fyrir okkur myndasýningu úr seinustu ferð hans og Benedikts til Tíbet en myndirnar voru teknar af ljósmyndaranum Elias Holzknecht sem var einnig á svæðinu.

Kærar þakkir til Hlöðvers, Jónu og allra á Björgum sem og allra sem lögðu leið sína norður til að njóta helgarinnar með okkur.