Re: svar: Grafarfoss

Home Forums Umræður Ís- og alpaklifur Grafarfoss Re: svar: Grafarfoss

#52146
AB
Participant

Flestir eiga sínar Grafarfosssögur. Hér er ein.

Grafarfossinn var fyrsta erfiða ísleiðin sem ég leiddi. Þetta var í febrúar 2002 og ég klifraði með Maggý. Veðrið var andstyggilegt; einhvers konar frost-slydda sem myndaði klakaskúlptúra í andliti manns, væri maður ekki duglegur að þurrka hana burt. Við klifruðum upp miðjan fossinn, upp í lítinn íshelli sem myndast þar gjarnan. Þaðan leiddi ég upp til hægri, fyrst upp ansi bratt ísþil. Ég lenti í miklum vandræðum vegna þess að augnlokin frusu saman milli högga og mér gekk erfiðlega að halda augunum opnum. Ég komst þó upp mesta brattann en áttaði mig á því að ég átti bara tvær ísskrúfur eftir fyrir síðustu 20 metrana og megintryggingu. Ég klifraði ca. 10m í viðbót setti inn skrúfu og kláraði svo fossinn. Þegar ég var alveg við það að ná upp að stórum steini ofan við fossinn, kláraðist línan. Þá var það eina í stöðunni að skrúfa inn þessa einu ísskrúfu sem eftir var og gera megintryggingu í ísbrekkunni fyrir ofan fossinn. En það var sama hvað ég reyndi, skrúfan vildi ekki ganga inn í ísinn því einn af göddunum fremst var innboginn. Ég vissi ekki þá að hægt er að berja aðeins ofan á ísskrúfur til að koma þeim inn í ísinn. Það var mjög kalt og hvasst þarna uppi á brúninni og ég vissi ekki hvað í fjandanum ég ætti til bragðs að taka. Ég endaði þó á því að höggva út íspolla og tryggði Maggý upp á honum. Allt tók þetta óratíma og hún var orðin frekar áhyggjufull í stansinum, enda vissu hún ekkert af mínum vandræðum, 40 m ofar. Þegar hún kom loks upp á brún var ég orðinn svo kaldur að ég gat tæpast hreyft mig. Það var svo hvasst að ég hafði ekki treyst mér til að ná í dúnúlpuna í bakpokanum. Maggý hálf dró mig til hliðar, út í móa, hjálpaði mér í dúnúlpuna mína og tróð í mig Snickers og þá kom ég til lífsins á ný. Takk, Maggý:)!

Við komumst svo loks niður. Ég uppskar mjög vægt kal í andlitið en Maggý fékk stærðarinnar kalsár á mjóbakið/síðuna þar sem úlpan hafði lyfst upp og bert bakið komist í snertingu við hina hressandi frost-slyddu.

Þetta þótti mér vera frábært ævintýri – þó sérstaklega þegar frá leið.

Kveðja,

AB