Re: Epic dagur í Þilinu, aftur!

Home Forums Umræður Ís- og alpaklifur Klifur í dag Re: Epic dagur í Þilinu, aftur!

#53322
2806763069
Member

Við Viðar fórum sem sagt í Þilið á Sunnudaginn. Byrjuðum daginn á því að setja jeppann hans Viðars í gegnum ís og pikk festa hann þannig. Viðar er nú ekki mikið fyrir það að sleppa úr klifurdögum og við skildum því einfaldlega bílinn eftir til með það fyrir augum að leysa þetta vandamál þegar klifrið væri búið.
Það var töluverður snjór í brekkunni undir Þilinu og ég ekki með snjóflóða búnað þar sem ég var ekki enn búinn að kveikja á því að það sé kominn vetur. Við drógum því línurnar á eftir okkur eins og menn gerðu í gamla daga. Ef annar lendir í flóði þá eru allar líkur á að eitthvað af línunni sé ofan á og félaginn ætti því að geta rakið sig eftir línunni. Veit svo sem ekki hversu vel þetta virkar, kannski hefur engin lifað til að segja frá því!

Eftir að hafa skilið eftir annan pokann og auka búnað byrjuðum við að klifra fossana sem maður þarf að klifra til að komast upp í Þilið sjálft. Þessir fossar eru svona lítil höft, maður getur valið hægri og vinstri foss. Ég valdi þann vinstri, að hluta af því að hann er brattari og af hluta af því að sá hægra megin skilar manni beint upp í miðja, mjög stóra, snjóbrekku sem er undir Þilinu. Ég klifraða auðveldlega upp fyrst haftið og lagði í það seinna, sem er lítið kerti. Þegar ég var kominn í toppinn á því þá tók ég kertið í sundur (hljómar kunnulega). Ég fór því niður með kertinu og sá að ég stemmdi hratt á Viðar sem var um 10m neðar. Viðar náði að skutla sér frá og sleppa þannig við að ég gataði hann með nýju broddunum mínum. Ég rúllaði svo áfram niður brekkuna og fram af neðra haftinu. Í heildina varð þessi ferð um 30m og síðustu 5 í litlu snjóflóði. Ég stóð upp óskaddaður, smá tjón á beltinu mínu og gat á buxunum. En annars góður. Við heldum áfram og tókum hægri fossinn, enda lítið eftir af þeim vinstri.

Við tryggðum svo upp brekkuna vegna þess að við vorum ekki vissir um stöðugleika snjóalaganna.

Viðar þaut svo upp fyrstu spönnina. Ég tók aðra spönnina og var töluvert lengur á ferðinni. Hellirinn þar sem maður setur upp megintryggingu fyrir þriðju spönnina var mjög þægilegur. Ég gaf Viðari ekki tækifæri til andmæla þegar hann kom upp. Skutlaði í hann því dóti sem ég var með og sendi hann af stað eftir nokkrar kexkökur og kakó sopa.
Hann leisti málið vel af hendi og var fljótlega horfin úr augsýn. Eftir svona 30 mín losaði ég hann úr tryggingartólinu enda hafði ég fengið vísbendingar um að megintrygging væri kominn upp. Eitthvað af línunni fór upp en svo var allt stopp, ég hreinsaði tryggingarnar mínar og setti svo Viðar aftur í tryggingu því þetta leit ekki út eins og að hann væri tilbúinn að taka mig upp. Eftir drykk langa stund hringdi síminn og hafandi verið í svipaðri stöðu áður veðjaði ég á að Viðar væri að hringja. Hann var að kvarta yfir að ég drullaðist ekki af stað og ég kvartaði yfir að hafa um 20m af slaka. Við toguðum eins og við gátum og Viðar settu upp dobblun á brúninni til að losa línuna sem við gerðum ráð fyrir að væri pikk frosin. Ekkert gerðis. Á endanum sett ég upp júmmun og byrjaði að klifra upp línuna. Vandamálið var hinsvegar það að línurnar höfðu snúist hver um aðra og voru flæktar í tryggingunum. Ég þurfti að klifra upp um 10m á línunni til að losa tryggingar þangað til að Viðar gat tekið inn slakan. Það var töluvert erfiðara að klifra upp línuna heldur en að klifra með öxum og broddum og ég var vægast sagt með allt á hornum mér. Loks gat ég klifrað eðlilega og elti línuna upp í gegnum týpíska Þili ísskúlptúra sem maður gerir ráð fyrir að leggi af stað niður dalinn þá og þegar.

Við sigum svo niður á prússiki utan um frosin stein. Alltaf gaman að síga þarna niður, yfir regnhlýfar og við hliðina á risavöxnum frí-hangandi grýlukertum sem maður þorir ekki fyrir sitt litla lífa að snerta. Tvær v-þræðingar í viðbót skiluðu okkur alla leið niður að bakpokanum sem við höfðum skilið eftir.

Vinur okkar Viðars, hann Herman kom svo að bjargaði okkur með bílinn.

Allt í allt topp dagur á fjöllum með nokkrum áhugaverðum flækjum!

Þilið er í topp aðstæðum og fæst ekki gefins frekar en fyrri daginn. Þó nokkuð ólíklegt að mönnum takist að brjóta það niður eins og mér tókst um árið.